SUS hvetur þingmenn til að má úr lögum mismunun á grundvelli kynhneigðar

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hvetur þingmenn til þess að má úr lögum alla mismunun á grundvelli kynhneigðar, en þetta kemur fram í ályktun sem félagið samþykkti í janúar síðastliðnum og ítrekar nú í tilefni umræðu síðustu daga, að því er segir í tilkynningu.

Í ályktun SUS segir að í lögum um staðfesta samvist og lögum um tæknifrjóvganir séu ákvæði sem fela í sér þessa mismunun.

„Síðastliðið haust lauk nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra störfum. Helmingur nefndarinnar lagðist gegn því að samkynhneigðum yrði leyft að ættleiða erlend börn og nýta sér tæknifrjóvgun. Nefndarmenn óttast að samstarf um ættleiðingar kunni að skaðast. Fordómar annarra ríkja í garð samkynhneigðra eru ekki réttlæting á lagalegu misrétti. Reynsla Svía til dæmis er sú að ekki verði hnökrar á samstarfi um ættleiðingar eða ættleiðingum fækki á nokkurn hátt. Auðvelt er draga úr ótta þeirra sem af þessu hafa áhyggjur, með því að leiða í lög eða reglugerð ákvæði um að samkynhneigðir geti einvörðungu ættleitt börn frá löndum sem leyfa slíkar ættleiðingar.“

„Niðurstaða ofangreindra nefndarmanna gegn tæknifrjóvgunum samkynhneigðra kvenna er ekki byggð á rökum heldur fordómum. Sömu fordómar eru nú í lögum um tæknifrjóvganir. Lögin kveða á um rétt tæknifrjóvgaðs barns að njóta bæði móður og föður. Stjórn S.u.s. telur það vera rétt barna að fá að alast upp hjá samkynhneigðum jafnt sem gagnkynhneigðum.“ „Að öðru leyti fagnar stjórn S.u.s. öðrum niðurstöðum nefndarinnar og leggur ríka áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn eigi áfram forystu um að afnema lagalegt misrétti gagnvart samkynhneigðum á Íslandi. Stjórn S.u.s skorar á þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins að beita sér fyrir breytingum á áðurnefndum lögum,“ segir í ályktuninni sem félagið hefur nú ítrekað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka