Þorsteinn Gylfason látinn

Þorsteinn Gylfason.
Þorsteinn Gylfason.

Þorsteinn Gylfason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, andaðist á Landspítalanum í gær, 63 ára að aldri. Þorsteinn var mikilsmetinn fræðimaður, mikill listunnandi, skáld og þýðandi.

Þorsteinn fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1942. Foreldrar hans eru hjónin dr. Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi prófessor og ráðherra, og Guðrún Vilmundardóttir húsmóðir.

Þorsteinn lauk stúdentsprófi frá MR árið 1961 og BA-prófi í heimspeki frá Harvard University árið 1965. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við HÍ 1962-1963 og í heimspeki við Háskólann í München 1967. Lagði Þorsteinn stund á framhaldsnám og rannsóknir í heimspeki við Magdalen College í Oxford á árunum 1965-1971.

Þorsteinn var kennari í heimspeki við HÍ frá 1971, hann var skipaður lektor árið 1973, dósent 1983 og var prófessor við háskólann frá árinu 1989. Þorsteinn vann um langt árabil að vexti og viðgangi heimspekinnar með ritstörfum, þýðingum og kennslu.

Hann lét sig einnig varða margvísleg önnur málefni og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var m.a formaður tónleikanefndar HÍ 1974-1976, ritari í stjórn Íslensku óperunnar 1980-1998 og átti sæti í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands frá 1980 og var formaður hennar í tíu ár frá 1993. Þá var Þorsteinn forstöðumaður Heimspekistofnunar HÍ frá 1982 til 1991 og ritstjóri ritraðarinnar Íslensk heimspeki 1982-1997.

Þorsteinn var afkastamikill við ritstörf á fræðasviði sínu og á sviði lista auk þess að vera mikilvirkur þýðandi. Þá ritaði hann fjölda ritgerða sem birtust bæði í innlendum og erlendum bókum og tímaritum.

Þorsteinn hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar og Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1997. Hann varð heiðursfélagi Félags áhugamanna um heimspeki 2004. Forseti Íslands sæmdi Þorstein riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994.

Þorsteinn var ókvæntur og barnlaus. Bræður Þorsteins voru Vilmundur, sem lést árið 1983, og Þorvaldur prófessor við HÍ.

Við fráfall Þorsteins þakkar Morgunblaðið fyrir mikil og góð samskipti um áratuga skeið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert