Einn maður er alvarlega slasaður eftir harðan árekstur strætisvagns og vörubíls sem varð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar, Laugavegar og Suðurlandsbrautar við Kauphöll Íslands um stundarfjórðung yfir 9 í morgun. Að sögn vakthafandi læknis á Landspítala-háskólasjúkrahúsi er hann nú í aðgerð og fer hann eftir það á gjörgæslu. Hann er þó ekki í lífshættu.
Tveir til þrír verða lagðir inn við viðbótar, mismikið slasaðir. Hinir eru með minniháttar meiðsli og verða þeir útskrifaðir eftir að gert hefur verið að sárum þeirra í dag. Sjö voru í strætisvagninum þegar áreksturinn varð.
Fjórir sjúkrabílar og lögreglubílar fóru á vettvang auk tækjabíls frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Loka þurfti gatnamótunum vegna slyssins. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verða þau opnuð að nýju um klukkan 12.30
Strætisvagninn var á leið frá Hótel Nordica við Suðurlandsbraut í átt að Hlemmi þegar vörubíllinn ók inn í framhlið hans á gatnamótunum. Strætisvagninn er mikið skemmdur.