Um 90 þúsund manns voru í miðbæ Reykjavíkur: Mikil ólæti um nóttina

Hátíð menningarnætur gekk vel fyrir sig og mun fleira fólk var að deginum til í bænum en í fyrra en heldur færra á kvölddagskránni, að sögn Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Reykjavík. Áætlað er að um 80-90 þúsund manns hafi verið í miðborg Reykjavíkur á laugardagskvöldið en um 100 þúsund manns voru á hátíðinni í fyrra.

Geir Jón segir dagskrána yfir daginn og fram yfir flugeldasýninguna hafa gengið afar vel fyrir sig og verið án óhappa og slysa. Um einn og hálfan tíma hafi tekið að koma umferð úr bænum eftir flugeldasýninguna sem þykir ekki langur tími miðað við hve umferðin var mikil og þung.

Hins vegar hafi orðið breyting á ástandinu þegar flugeldasýningunni lauk og næturlífið tók við. "Þá tekur við annar bragur sem við viljum alveg slíta úr tengslum við hátíð menningarnætur," segir Geir Jón en mikil drykkja og læti voru í bænum um nóttina og mun meiri en í fyrra. "Það var nóg að gera að taka á því," segir Geir Jón, sem telur að rigning og kuldi kunni að hafa spilað þar inn í.

Um 50 lögreglumenn á vakt

Lögreglan í Reykjavík var með mikinn viðbúnað í bænum á laugardag. Um nóttina og yfir daginn voru alls um 50 lögreglumenn að störfum og barst lögreglunni í Reykjavík meðal annars liðsauki frá Snæfellsnesi, Búðardal og Akranesi.

Lögreglumenn höfðu meðal annars afskipti af manni sem hafði rispast á hálsi eftir hníf og blætt talsvert og er talið að hnífsárið hafi komið til í aðdraganda slagsmála sem urðu á Ingólfstorgi.

Í Austurstræti var Daihatzu-bifreið velt og er talið að hópur manna hafi tekið sig saman og velt bílnum. Bíll frá Vöku var kallaður út og tók bílinn burt.

Lögregla gerði athuganir á sjófarendum við höfnina í gær, en fjöldi smábáta siglir út fyrir höfnina á menningarnótt til að fylgjast með flugeldasýningunni frá sjó. Kannað var hvort sjófarendur hefðu neytt áfengis og eins hvort þeir hefðu full skipstjórnarréttindi og á nokkrum bátum var misbrestur á þessu. Eitt dæmi var um að björgunarbátur væri læstur niðri í lest bátsins.

Eitthvað var um að skemmtistaðir væru opnir lengur en löglegt er og fóru lögreglumenn inn á tvo til þrjá staði til að ýta við þeim sem reka skemmtunina og fá þá til að loka.

Þá voru tólf ungmenni á aldrinum 12-14 ára tekin upp í lögreglubíl og komið heim um klukkan tvö um nóttina þar sem þau voru úti eftir að leyfilegum útivistartíma þeirra var lokið. Eins og áður sagði var mikið um slagsmál í bænum og að sögn lögreglu var eitthvað um að þau leiddu til beinbrota.

Flestir voru farnir úr miðbænum um áttaleytið á sunnudagsmorgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert