Eldur kom upp í verksmiðju Kaffitárs í Reykjanesbæ skömmu fyrir klukkan níu í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja gaus eldurinn upp í mölunarofni í verksmiðjunni og fór hann upp í loftræstistokk hjá ofninum. Mjög skamma stund tók að slökkva eldinn en slökkviliðsmenn voru til öryggis á staðnum þegar loftræstistokkarnir voru opnaðir.
Mikill reykur var á staðnum þegar lögregla og slökkviliðsmenn komu á staðinn. Skemmdir urðu á mölunarofninum og reykstokknum en tjón er vart teljandi á öðrum hlutum verksmiðjunnar.