Björn Björnsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Íslandsbanka, lést í gær, sunnudag, á fimmtugasta og sjöunda aldursári.
Björn fæddist á Akureyri 24. ágúst 1949, sonur Björns Jónssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, alþingismanns og ráðherra, og Þórgunnar K. Sveinsdóttur húsfreyju.
Björn ólst upp á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1969 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1973.
Að loknu námi hóf Björn störf hjá kjararannsóknanefnd en gerðist síðar hagfræðingur Alþýðusambands Íslands og gegndi því starfi frá 1981-87 er hann gerðist aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Hann var bankastjóri Alþýðubankans 1988-89, bankastjóri hjá Íslandsbanka 1990-93 og eftir það framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, þar til hann varð aðstoðarforstjóri í ársbyrjun 2003. Hann lét af störfum í bankanum fyrr á þessu ári.
Björn gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga 1979-81 og varaformaður þar 1980-81. Hann sat í kauplagsnefnd 1984-87 og í bankaráði Seðlabanka Íslands 1986-88. Þá var hann í milliþinganefnd um staðgreiðslu opinberra gjalda árið 1987, í stjórn Sambands íslenskra viðskiptabanka 1988-90 og í endurskoðunarnefnd Norræna fjárfestingarbankans 1989-94. Hann sat einnig um tíma í stjórn Atvinnutryggingasjóðs útflutningsgreina, Reiknistofu bankanna og Glitnis og í stjórn Fiskveiðisjóðs frá 1990-92 og frá árinu 1994. Hann var í framkvæmdastjórn Iðnþróunarsjóðs 1992-95, sat í stjórn Greiðslumiðlunar frá árinu 1992 og var formaður stjórnar Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka frá sama tíma.
Björn kvæntist Guðnýju Irene Aðalsteinsdóttur 1974 og eignuðust þau tvær dætur, Bryndísi og Ásdísi.