Fallist á kvenmannsnafnið Eleonoru

Mannanafnanefnd hefur heimilað að kvenmannsnafnið Eleonora verði fært á mannanafnaskrá á þeirri forsendu, að þessi ritháttur nafnsins hafi áunnið sér hefð. Nefndin hafði áður hafnað nafninu.

Í nýjum úrskurði nefndarinnar segir, að í lögum um mannanöfn sé kveðið á um að nafn skuli rita í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Rithátturinn Eleonora í stað Eleonóra teljist ekki vera í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.

Þá segir nefndin að rithátturinn Eleonora uppfylli ekki vinnulagsreglur nefndarinnar við mat á hefð í íslensku máli. Samkvæmt útgefnum upplýsingum úr manntali 1910 komi rithátturinn Eleonora ekki fyrir þar, heldur aðeins Eleónóra, en ritháttur í manntalinu 1910 og eldri gögnum sé um margt óáreiðanlegur, einkum er varði notkun broddstafa. Með tilliti til þess þyki rétt að láta þann, sem óskaði eftir úrskurði um nafnið, njóta þess vafa sem ríki um rithátt nafnsins í þessum gögnum. Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu, að eins og þetta tiltekna mál væri vaxið væri rétt að fallast á að rithátturinn Eleonora hafi áunnið sér hefð.

Mannanafnanefnd hefur í þessum mánuði fjallað um fleiri nöfn. Þannig fellst nefndin á kvenmannsnöfnin Daggrós, Sillu og Kendru á þeirri forsendu að þau tækju eignarfallsendingum og uppfylltu önnur ákvæði um mannanöfn. Einnig féllst nefndin á nafnið Theresu á þeirri forsendu að það hafi unnið sér hefð í íslensku máli. Nefndin hafnaði hins vegar kvenmannsnafninu Lisbeth.

Þá féllst nefndin á karlmannsnöfnin Artúr og Francis en hafnaði nöfnunum Kilian og Dominic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert