Fiskur veiðist í drullupolli í Engidal

Nokkuð er af laxi í litlum drullupolli í Engidal í Skutulsfirði sem myndast hefur við jarðrask, en vinnuvélar eru nú að störfum á svæðinu. Í gegnum pollinn rennur á og virðist fiskurinn ganga upp hana og lenda í pollinum.

Grétar Jónasson varð var við fiskinn þegar hann var ásamt börnum sínum að leik á svæðinu.

„Ég var bara að leika mér með krökkunum og var ekkert sérstaklega að reyna að veiða þegar ég sá fiskinn. Það var rosalega mikið af honum. Svo kíkti ég aftur í gær og þá voru þar þrír stórir laxar“, segir Grétar við fréttavefinn bb.is.

Grétar segir að laxinn hafi ekki tekið í pollinum, en það hafi 7 vænar bleikjur aftur á móti gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert