Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi lagði á fundi borgarráðs í gær fram fyrirspurn vegna ítrekaðra kvartana vegna aðgengis gangandi og hjólandi vegfarenda á og við hina nýju Hringbraut. Sagði Árni Þór því haldið fram að hagsmunir óvarinna vegfarenda væru ætíð látnir víkja fyrir hagsmunum akandi og óskaði eftir skriflegu svari sviðsstjóra framkvæmdasviðs borgarinnar.
Annars vegar spurði Árni hvort einhverjar verklagsreglur giltu hjá Vegagerðinni og framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar um jafnt aðgengi vegfarenda þegar unnið er að umferðarframkvæmdum. Hins vegar spurði hann hvort verktakar fengju einhverjar leiðbeiningar eða fyrirmæli um að veita akandi umferð forgang umfram gangandi og hjólandi.