Stjórn UVG í Reykjavík fordæmir vinnubrögð Heimdellinga

Stjórn Ungra vinstri grænna í Reykjavík fordæmir vinnubrögð Heimdellinga við kosningabaráttu sína til stjórnar, segir í fréttatilkynningu frá UVG í Reykjavík í kvöld.

Í tilkynningunni segir ennfremur:

„Það er niðurlægjandi fyrir ungt fólk að lokka það inn í stjórnmálaflokk með pizzum, gosdrykkjum, bíómiðum og áfengi, til þess eins að kjósa einn tiltekinn einstakling í formannsembætti ungliðahreyfingar. Slíkt gengisfellir allt sem heitir heilbrigð stjórnmálaumræða og er málstað ungs fólks ekki til framdráttar.

Það er ennfremur ámælisvert þegar starfsmenn frambjóðanda hringja í stjórnarmenn annarra ungliðahreyfinga til að sækja sér stuðning. Slíkt átti sér stað þegar starfsmenn Bolla Thoroddsen hringdu í stjórnarmenn Ungra vinstri grænna í Reykjavík og báðu þá um að kjósa Bolla á þeim forsendum að formaður UVG-R, auk annarra, styddu Bolla og sættu sig við slík vinnubrögð. Sú fullyrðing þeirra er uppspuni og rógburður frá upphafi til enda.

Ung Vinstri Græn í Reykjavík fara fram á formlega afsökunarbeiðni frá Bolla Thoroddsen og krefjast þess jafnframt að stjórnarmenn UVG-R verði teknir tafarlaust af öllum listum og skrám sem tengjast Sjálfstæðisflokknum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka