Fjárveiting til Útlendingastofnunar hækkar tímabundið um 225 milljónir króna á næsta ári. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 segir, að hækkunin eigi rætur að rekja til þess að vegna alþjóðlegra krafna, einkum frá Alþjóðaflugmálastjórninni, Shengen-samkomulaginu og stjórnvöldum í Bandaríkjunum sé áformað að taka í notkun nýja tegund vegabréfa sem innihalda lífkenni.
Endurnýja þarf vél- og hugbúnað hjá sýslumannsembættum og keyptir sérstakir fingrafaralesarar og nýjar vegabréfabækur, sem innihalda örflögu með upplýsingum um lífkenni handhafa.
Þá verður keyptur búnaður sem gerir kleift að taka upp lífkenni í vegabréfsáritanir og dvalarleyfi. Þar á meðal er sérstakur gagnagrunnur, sem Shengen-löndin munu nota í þessu skyni.
Miðað er við að 40 þúsund vegabréf verði gefin út á næsta ári og verð á hverju vegabréfi verði 1150 krónur. Innkaupakostnaður Útlendingastofnunar verður því um 46 milljónir króna.