Stærsta flugvél heims, Antonov 225, lenti á Keflavíkurflugvelli í nótt á leið sinni til Bandaríkjanna. Vélin er að koma frá Grikklandi og farmurinn eru gríðarstórar rafstöðvar sem nota á á hamfarasvæðum í suðurríkjum Bandaríkjanna. Vélin mun fara frá Keflavík áleiðis vestur um haf seint í kvöld.
Flugvélin, sem lenti í Keflavík í nótt, er engin smásmíði. Hún er 84 metra löng og með 88,5 metra vænghaf. Vélin hefur sex mótora og fulllestuð er hún um 650 tonn í flugtaki. Flugvélin getur lengst flogið 15.500 kílómetra, en fulllestuð dregur hún um 4000 kílómetra.
Flugvélin er upphaflega smíðuð í Úkraínu til að taka þátt í geimferðaáætlun Sovétríkjanna og hlutverk vélarinnar var þá að flytja geimferju Sovétmanna. Fyrir fjórum árum var vélin endurbyggð og er í dag notuð til að flytja þunga hluti heimshorna á milli.