Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld, að hinn kristni boðskapur, sem sjálfstæðismenn legðu stefnu sinni til grundvallar, byggi ekki síður á þeim auði sem mölur og ryð fá ekki grandað.
„Þess vegna megum við ekki missa sjónar á því, að þótt fjárhagsleg auðlegð þjóðarinnar sé mikilvæg þá á það einnig við um þau verðmæti, sem felast í þeim menningararfi og lífsgildum sem gera okkur að Íslendingum og frjálsum Íslendingum," sagði Geir.
Hann sagði, að stjórnmálin snérust um grundvallarviðhorf og mismunandi viðhorf einstaklinga til þeirra. „Ég trúi því, að allir alþingismenn hafi á endanum sama markmiðið að leiðarljósi: Að gera okkar góða samfélag enn betra. Okkur greinir hins vegar á um hugmyndafræðina í því efni og leiðirnar að markinu. Það framfaraskeið sem við upplifum nú er sönnun þess að sú hugmyndafræði, sem byggir á frelsi einstaklingsins og milliríkjasamskiptum, er margfalt líklegri til að bæta hag almennings en aðrar leiðir sem hafa verið ræddar og boðaðar. Sá góði ásetningur, sem býr hjá okkur þingmönnum, er því ekki nægilegur. Við verðum að velja réttu leiðina að markinu. Það mun ráða úrslitum um hvort markmiðið næst hér eftir sem hingað til," sagði Geir.