Hópur drengja á aldrinum 14-16 ára réðst á stúlku við Lóuhóla í Breiðholti síðdegis í gær. Spörkuðu drengirnir í hana þar sem hún lá í götunni.
Stúlkan, sem er 16 ára, úlnliðsbrotnaði við árásina og var flutt á slysadeild til frekari skoðunar. Meiðsli hennar eru þó ekki alvarleg, að sögn lögreglu.
Málsatvik eru ekki fullþekkt en drengirnir og stúlkan þekktust og virðist hafa komið til einhverra átaka þeirra á milli, sem lauk með því að drengirnir yfirbuguðu hana og réðust á hana, sem fyrr segir. Lögregla náði tveimur piltanna á staðnum en talið er að þeir hafi verið fimm til sex og hefur lögregla haft afskipti af sumum þeirra áður.