Vélin var í sólarhring á Keflavíkurflugvelli

Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is
Flugvél sem danskir fjölmiðlar hafa sagt að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hafi notað til að flytja fanga sem grunaðir eru um hryðjuverk á milli landa, millilenti á Keflavíkurflugvelli á þessu ári og var í um sólarhring á vellinum áður en hún hélt áfram vestur um haf. Frá ársbyrjun 2002 hefur hún lent þrisvar sinnum á Keflavíkurflugvelli samkvæmt upplýsingum Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli.

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að Frank Aaen, talsmaður vinstri flokksins Einingarlistans í Danmörku, hefur krafist þess að fá skýringu á því hvert erindi flugvélarinnar hafi verið þegar hún lenti í Kaupmannahöfn 7. mars á þessu ári. Í norrænum fjölmiðlum hefur verið greint frá því að umrædd þota hefur verið notuð til að ferja meinta hryðjuverkamenn um heiminn, m.a. til landa þar sem vitað er að mun harkalegri aðferðum er beitt við yfirheyrslur en leyfilegt er samkvæmt bandarískum lögum.

Í fyrirspurn Frank Aaen til danska samgönguráðherrans spurði hann um flugvélar með 44 skráninganúmer hefðu farið um danska lofthelgi. Ráðherrann staðfesti að sjö af þessum flugvélum hefðu farið um danska lofthelgi á tímabilinu 1. janúar 2001 til 3. október 2005 og að þrjár hefðu lent á dönskum flugvöllum. Ekkert kemur fram um tilgang ferðanna.

Skráninganúmer umræddrar flugvélar var N221SG. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli lenti þota með þessu númeri skömmu fyrir hádegi 8. mars og fór um hádegi sólarhring síðar. Vélin kom frá Kaupmannahöfn og hélt áleiðis til Kanada. Farþegar eru eingöngu skráðir ef þeir fara frá borði en ekki var um það að ræða í þessu tilfelli. Ekkert er heldur skráð um eiganda, flugrekstraraðila eða tilgang fararinnar, fremur en venjulega.

Danska ríkissjónvarpið sagði frá því í gær að flugvélin væri skráð í eigu Path Corporation sem væri eitt af leppfyrirtækjum CIA. Hjá bandarískum loftferðayfirvöldum væri hún skráð sem tilraunaflugvél. Vélin er af gerðinni Learjet 35 og tekur alls 10 manns í sæti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert