Sprengja sprakk undir bíl í Skeifunni í Reykjavík um klukkan hálfþrjú í nótt. Kona sem átti leið þar hjá hlaut áverka á fæti við það að brot úr sprengjunni lentu í fæti hennar. Var hún flutt á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hennar sem munu hafa verið minniháttar.
Sprengjusérfræðingur lögreglunnar rannsakaði vettvang en ekki eru frekari upplýsingar gefnar, að svo stöddu, um hvers kyns sprengjan var eða annað viðkomandi málinu. Bíllinn mun hafa skemmst mikið í sprengingunni og er ekki vitað hver stóð að baki henni.