Dagur B. Eggertsson: Alltaf meirihluti fyrir málinu

Húsfélag Skúlagötu 32 til 34 hefur ákveðið að kæra ákvörðun borgaryfirvalda um byggingu á svokölluðum Barónsreit. Meðal þess sem kom fram í máli Inga Bjarnar Poulsen, formanns húsfélagsins, var að athugasemdir verða gerðar við málsmeðferðina og sagði Ingi að aðeins einn fulltrúa hefði greitt tillögunni atkvæði í skipulagsráði og þrír í borgarráði.

Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs borgarinnar, segir rangt að aðeins einn fulltrúi hafi greitt tillögunni atkvæði í skipulagsráði, traustur meirihluti hafi verið fyrir málinu allan tímann þó svo að hjáseturnar vegna hæðar húsanna við Skúlagötu og vegna formsatriða hafi fækkað formlegum atkvæðum þegar til kom.

Tveir fulltrúar skipulagsráðs greiddu tillögunni atkvæði, Dagur og Stefán Benediktsson. Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi VG, var einn þeirra sem sátu hjá og segir Árni að hann sjálfur og fleiri hafi ekki getað samþykkt tillöguna þar sem litið var svo á að þetta væri alls ekki nógu gott skipulag fyrir þennan reit. Helst er þá horft til þriggja fimmtán hæða íbúðaturna sem fyrirhugaðir eru sem Árna finnst of háir.

Spurður hvort eðlilegt sé að tveir fulltrúar í skipulagsráði og svo þrír fulltrúar borgarráðs geti komið svo veglegri tillögu í gegnum kerfið sagði Dagur: "Ég held að kjarni málsins sé að það sé mikill meirihluti fyrir þessu þó að minnihlutinn hafi ekki viljað axla ábyrgð á ákvörðuninni."

Dagur bætir við að ríkur stuðningur sé við það verkefni að gefa ungu fólki kost á að búa þar sem það kýs helst á námsárunum og um leið styrkja miðborgina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka