Tuttugu og átta ára gamall maður, Stefán H. Ófeigsson, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga tæplega tvítugri stúlku í nóvember í fyrra. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að nauðgunin hafi verið sérlega ruddafengin og gróf. Rannsakað var hvort stúlkunni hefði verið byrlað ólyfjan áður en hann réðst á hana en rannsókn á blóði hennar staðfesti ekki þann grun.
Lyfið Rohipnol sem nauðgarar hafa notað gegn fórnarlömbum sínum skilst hratt úr líkamanum og því getur verið erfitt að finna líkamleg sönnunargögn fyrir notkun þess. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins kærði önnur stúlka manninn fyrir nauðgun en það mál var fellt niður.
Ingveldur Einarsdóttir, Páll Þorsteinsson og Símon Sigvaldason kváðu upp dóminn. Sigríður J. Friðjónsdóttir sótti f.h. ríkissaksóknara og Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. var til varnar. Réttargæslumaður var Ása Ólafsdóttir hdl.