Sá fáheyrði atburður átti sér stað í gær að ökumaður pallbíls réðst á Þóri Karl Jónasson, fyrrum formann Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, vegna ágreinings um bílastæði fyrir utan verslunina Europris í Skútuvogi.
Að sögn Þóris var hann í þann mund að leggja í bílastæði ætlað fötluðum þegar pallbíll svínaði fyrir hann og lagði í stæðið. Þórir, sem er með sérstakt P-kort sem veitir honum leyfi til að leggja í þessi stæði, bað manninn um að nota ekki stæðið, enda væri það ætlað fötluðum, en kveður ökumanninn hafa sagst leggja þar sem hann vildi. Þórir lagði þá bíl sínum fyrir aftan pallbílinn og lokaðist hann þannig inni. Þegar Þórir kom aftur út úr versluninni beið bílstjóri pallbílsins eftir honum, kvaðst hafa lamið menn fyrir minna, sparkaði í magann á honum og ók svo á brott. Hjón nokkur urðu vitni að atburðinum og hjálpuðu Þóri á fætur.
Þórir náði númeri pallbílsins og hafði samband við lögreglu með það fyrir augum að kæra, en þá var honum tjáð að búið væri að loka fyrir skýrslutökur þangað til klukkan átta í dag. Þórir hlaut ekki alvarleg meiðsl við árásina en kveðst þó ætla að leggja fram kæru í dag. "Það er alltaf verið að leggja í þessi bílastæði og þegar ég var formaður Sjálfsbjargar fékkst það í gegn að gefnar yrðu út sektir fyrir þá sem leggja í bílastæði fatlaðra á einkalóðum, en það virðist ekki vera neitt eftirlit með því," segir Þórir. "Þegar maður gerir athugasemdir við það þá fær maður yfirleitt puttann." Þórir furðar sig jafnframt á því að maðurinn skuli hafa kosið að grípa til ofbeldis.
Þórir hefur rætt máli ð við núverandi formann Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og segir hann málið verða rætt í stjórn félagsins á morgun.