Frumvarp um bann við reykingum lagt fram á Alþingi

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um breytingar á tóbaksvarnalögum sem gerir ráð fyrir að reykingar í þjónusturými veitinga- og skemmtistaða verði bannaðar með öllu frá og með 1. júní 2007. Segir í frumvarpinu, að með þeirri frestun á framkvæmd laganna verði rekstraraðilum gefinn kostur á aðlögunartíma.

Frumvarpið var samið af starfsmönnum ráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar og tóbaksvarnaráðs en er efnislega samhljóða þingmannafrumvarpi sem kom fram á Alþingi í fyrra en var ekki afgreitt.

Meginmarkmið frumvarpsins er sagt vera vinnuvernd starfsmanna með vísan til gildandi vinnuverndarlaga og tóbaksvarnalaga og vernd almennings með vísan til hratt vaxandi fjölda vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsuskaða og dauðsföllum. Segir í greinargerð með frumvarpinu að þegar þetta meginmarkmið sé uppfyllt megi búast við ýmiss konar öðrum ávinningi af reykbanninu, bæði fyrir samfélag og einstaklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert