Stjórnarflokkar samþykkja frumvarp um að RÚV verði breytt í hlutafélag

Hús Ríkisútvarpsins við Efstaleiti í Reykjavík.
Hús Ríkisútvarpsins við Efstaleiti í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæber

Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu í dag frumvarp menntamálaráðherra sem gerir ráð fyrir því að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarpið fyrir sitt leyti í síðustu viku. Að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra er í frumvarpinu tryggt að Ríkisútvarpið verði ekki einkavætt nema með samþykki Alþingis.

Þorgerður Katrín sagðist gera ráð fyrir því að mæla fyrir frumvarpinu á Alþingi fyrir jól svo það komist til nefndar.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er frumvarpið að mörgu leyti áþekkt og frumvarpið sem lagt var fram fyrr á þessu ári en það frumvarp gerði ráð fyrir því að RÚV yrði breytt í samvinnufélag í eigu ríkisins. Áfram er gert ráð fyrir nefskatti í stað afnotagjalds til að fjármagna rekstur stofnunarinnar og að sérstök stjórn verði sett yfir RÚV sem geti ráðið útvarpsstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert