Gefur kost á sér í 3. sæti Framsóknarflokksins

Gestur Guðjónsson.
Gestur Guðjónsson.

Gestur Guðjónsson, umhverfis- og öryggisfulltrúi hjá Olíudreifingu, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar, sem fram fara á næsta ári.

Gestur er 33 ára með meistaragráðu í umhverfisverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku og hefur starfað sem umhverfis- og öryggisfulltrúi hjá Olíudreifingu ehf. síðan 1998.

Í tilkynningu Gests um framboðið segir: „Í námi mínu fékk ég auk umhverfismála góða innsýn í skipulags-, umferðar- og orkumál. Hef ég í starfi mínu hjá Olíudreifingu aflað mér afar víðtækrar reynslu í umhverfis-, öryggis- og gæðamálum í fjölbreyttum rekstri fyrirtækisins. Einnig hef ég sinnt samskiptum við yfirvöld og eftirlitsaðila, innlenda sem erlenda, og setið í nefndum og starfshópum á starfssviði mínu fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, sérstaklega í málum er varða flutning á hættulegum efnum.“

Gestur hefur m.a. átt sæti í miðstjórn flokksins frá árinu 2001, í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, SUF, frá 2003 og er formaður þjóðmálanefndar SUF. Þá situr hann í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert