Iceland Express úthýsir fraktflutningum

Frá og með 1. janúar 2006 hefur danska fyrirtækið One XP umsjón með allri starfsemi Iceland Express sem snýr að fraktflutningum. Þetta felur meðal annars í sér samskipti við flutningsmiðlara og þjónustuaðila á flugvöllum, gæðastjórnun og eftirlit, segir í fréttatilkynningu frá Iceland Express.

Samhliða þessu mun danska fyrirtækið Proactive verða sölu- og þjónustuaðili á flugfrakt fyrir viðskiptavini Iceland Express með skrifstofu og fastan starfsmann í Keflavík.

Í tilkynningunni kemur fram að farþegaflug hafi frá upphafi verið mikilvægasti þátturinn í rekstri Iceland Expres að sögn Birgis Jónssonar framkvæmdastjóra. Hann segir að með úthýsingu frakthlutans geti félagið einbeitt sér að því sem skiptir það mestu máli, eða farþegum flugfélagsins.

„Þessar breytingar munu hafa í för með sér hagræðingu og bætta þjónustu í fraktflutningum Iceland Express. Langmestur hluti fraktflutninga félagsins fer í gegnum flutningsmiðlara og því munu breytingarnar hafa lítil sem engin áhrif á almenna neytendur,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert