Smyrillinn ungi sem settist á netadræsu í Sandgerði gleymir sjálfsagt seint klaufaskap sínum enda flækti hann sig í netunum.
Smyrillinn var þó heppinn því það sást til hans og maður kom honum til bjargar. Færði hann í Fræðasetrið í Sandgerði þar sem heilsa hans var könnuð.
Að sögn Gunnars Þórs Hallgrímssonar, líffræðings hjá Náttúrustofu Reykjaness, amaði ekkert að smyrlinum og hafði hann nægan fituforða. Því var fuglinn merktur með stálhring frá Náttúrufræðistofnun Íslands og honum síðan sleppt í Sandgerðisbæ.
Hann var frelsinu feginn og flaug fimlega upp á staur í öruggri fjarlægð frá bjargvættunum til að snyrta sig eftir ævintýrið.