300 þúsundasti Íslendingurinn fær heimsókn

300 þúsundasti Íslendingurinn fær heimsókn á fæðingardeildina.
300 þúsundasti Íslendingurinn fær heimsókn á fæðingardeildina. Ásdís Ásgeirsdóttir

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Hallgrímur Snorrason, hagstofustjóri fóru í heimsókn á fæðingardeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Reykjavík í dag. Afhentu þeir Erlu Maríu Andrésdóttur og Haraldi Arnarsyni, foreldrum drengsins, skjal til staðfestingar á því að sonur þeirra teljist 300 þúsundasti skráði íbúi Íslands.

Aðspurður um hvort heimsóknin flokkaðist með skemmtilegri embættisverkum svaraði Halldór því að hann teldi heimsóknina ekki teljast til embættisverka.

„Þetta er náttúrulega það skemmtilegasta sem maður gerir, að horfa á nýfædd börn, og ég er nú svo heppinn að það eru akkúrat fimm mánuðir síðan ég var hérna staddur til að taka á móti barnabarni,“ sagði hann.

Halldór sagðist jafnframt binda miklar vonir við drenginn nýfædda, eins og reyndar alla Íslendinga, og sagði þjóðina mjög gæfusama að eiga jafn mikið af ungu fólki og raun beri vitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka