Samfellan í íslensku máli að rofna og bókmenntahefðin að hrynja að mati málfarsráðunauts RÚV

Málfarsráðunautur ríkisútvarpsins, Aðalsteinn Davíðsson, telur að efla verði verulega móðurmálskennslu í grunnskólum landsins þar sem samfellan í íslensku máli sé að rofna og bókmenntahefðin að hrynja. Orðaforði ungmenna minnki ár frá ári og beygingar sagna verði sífellt brenglaðri.

Aðalsteinn sagði í hádegisfréttum ríkisútvarpsins að viðtengingarháttur sagna vefðist verulega fyrir ungu fólki og tók sem dæmi úrlausnir í prófum: „Mér er sama þótt hann kemur,“ og „mér var sama þótt hann fór,“ en slíkar úrlausnir hefðu verið óhugsandi fyrir um tveimur áratugum. Nemendur hans í menntaskóla vilji ekki lengur lesa Egilssögu þar sem þeim þyki málið of torskilið, en það hafi ekki verið svo þegar hann hóf kennslu í menntaskóla árið 1971. Þá hafi Egilssaga verið eftirlætisefni nemenda.

Aðalsteinn segir að auka þurfi móðurmálskennslu og gefa meira út af sígildum bókmenntum. Ganga verði eftir því að börn lesi og láta þau gera fleiri skriflegar æfingar. Of lítið sé talað við börn og þau lesi of lítið. Greint var frá þessu í hádegisfréttum ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert