Vilja skoða hvort leggja eigi á nagladekkjagjald

Um 70% bíla í Reykjavík eru með nagladekkjum yfir vetrarmánuðina.
Um 70% bíla í Reykjavík eru með nagladekkjum yfir vetrarmánuðina.

Vinnuhópur um notkun nagladekkja í Reykjavík leggur til víðtækt samráð við hagsmunaaðila, upplýsingamiðlun og að skoðað verði hvort leggja ætti gjald á til að takmarka notkun nagladekkja í borginni. Þá leggur hópurinn til, að kannað verði hvort nota eigi sérstakar tegundir rykbindandi salts á helstu umferðargötur. Slíkt hafi verið reynt í öðrum borgum Norðurlanda með góðum árangri, en slíkt salt sé mun dýrari en venjulegt salt.

Vinnuhópurinn lagði fram skýrslu um málið fyrir Umhverfisráð Reykjavíkur í morgun. Þar kemur fram, að erlendis hafi talsverðar rannsóknir farið fram til að kanna í hve miklu mæli nagladekk séu öruggari umfram önnur dekk og hvaða afleiðingar það hefði að draga úr notkun þeirra eða banna þau alfarið. Meginniðurstöður séu þær, að aðstæður þar sem nagladekk hafi kosti umfram allar aðrar tegundir naglalausra dekkja, séu fremur sjaldgæfar og að slysatíðni hafi ekki aukist svo nokkru nemi eftir að nagladekk hafi verið bönnuð, til dæmis í Japan. Það virðist því hægt að draga verulega úr notkun nagladekkja án þess að öryggi vegfarenda sé stefnt í hættu. Í Reykjavík séu í seinni tíð aðeins nokkrir dagar á hverjum vetri þar sem nagladekkja er þörf og því sé ástæða til að leita annarra leiða.

Talið er 70% ökutækja í Reykjavík séu búin nagladekkjum en leyfilegur notkunartími nagladekkja er frá 1. nóvember til 15 apríl. Ljóst þykir að notkun nagladekkja hafi í för með sér vandamál sem tengist mengun og sliti gatna. Um 55% svifryks er uppspænt malbik og áætlað er að um 10.000 tonn af slitlagi þurfi árlega til endurnýjunar gatna og getur kostnaður numið á bilinu 100 til 200 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisráði.

Skýrsla starfshópsins um nagladekk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert