Vel fór á með utanríkisráðherrum Íslands og Bretlands

Jack Straw, utanríkisráðherra Breta, og Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, á …
Jack Straw, utanríkisráðherra Breta, og Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, á fundi þeirra tveggja í dag. AP

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, hitti starfsbróður sinn, Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, á skrifstofu hins síðarnefnda í utanríkisráðuneytinu í dag. Á fundinum, sem stóð í um 45 mínútur, ræddu þeir um samskipti Íslands og Bretlands, Evrópusambandið, auk almennrar umræðu um alþjóðleg málefni.

Fréttavefur Morgunblaðsins heyrði í ráðherranum eftir fundinn og sagði hann viðræðurnar hafa verið afar vinsamlegar og að vel hafi farið á með þeim starfsbræðrunum. Geir sagði Straw m.a. hafa fagnað sókn íslenskra fyrirtækja til Bretlands en á fundinum var upplýst að íslensk fyrirtæki í Bretlandi séu með fleira fólk í vinnu en t.d. svissnesk.

Þá rifjuðu ráðherrarnir upp að 30 ár eru liðin frá því að þorskastríðunum lauk og slógu því föstu að engin vandamál séu á milli þjóðanna. „Samskiptin á milli landanna eru óaðfinnanleg, bæði hvað varðar viðskipti og stjórnmál. Mjög virk sendiráð eru í báðum löndunum sem vinna ágæt störf og svo eru Íslendingar mjög virkir hér,“ sagði Geir og bætti við að þeir hafi einnig rætt um stækkun Evrópusambandsins, en að öllum líkindum munu Búlgaría og Rúmenía ganga þar inn á næsta ári.

Geir sagði það hafa vakið athygli sína að Straw telur að Íslendingar muni ekki hafa neinn sérstakan hag af því að ganga í ESB. „Það fannst mér athyglisvert að hann hafi hugsað eitthvað um það,“ segir Geir og vísaði til orða Straws um að „okkur gengi bara það vel utan bandalagsins að það væri engin nauðsyn á því. Fyrir utan allan þann kostnað og þá byrði sem fylgja aðildinni.“

Geir heldur dagskrá sinni áfram í fyrramálið þegar hann hittir William Hague, talsmann Íhaldsflokksins í utanríkismálum. Hann býst við að umræðuefnin verði svipuð og í dag, en áhugavert verði að sjá hvar skilur á milli flokkanna um einstök alþjóðamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert