Ríkisskattstjóri hefur fallist á ábendingar BSRB varðandi skattlagningu einkennisfatnaðar sem ákveðnar stéttir þurfa að klæðast vegna starfs síns. Áður voru einkennisklæðin metin starfsmanni til tekna, sem svaraði til 25 þúsund króna eða meira. Þetta varðaði t.d. tollverði og lögregluþjóna.
Á heimasíðu BSRB segir, að í nýjum reglum um skattmat fyrir árið 2006 komi fram, að ef lög eða stjórnvaldsfyrirmæli kveði á um að launþegi skuli klæðast ákveðnum einkennisfatnaði við störf sín, skuli slík afnot ekki metin launþega til tekna.
Þá segir í nýju skattmatsreglunum, að ekki skuli reikna launþega til tekna nauðsynlegan öryggis- eða hlífðarfatnað við störf hans sem launagreiðandi afhendir honum til afnota, þ.m.t. þann öryggis- og hlífðarfatnað, sem launagreiðendum er skylt samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningum að afhenda launþegum án endurgjalds.