Trúfélög harma fráhvarf kristinna siðferðisgilda

Samvinnuhópur tuttugu kristinna trúfélaga og nítján einstaklinga hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir stuðningi við biskup Íslands þegar hann segi að hjónaband sé sáttmáli milli eins karls og einnar konu. Þá segjast trúfélögin harma það fráhvarf kristinna siðferðisgilda sem ríkisstjórn Íslands sýni með frumvarpi til laga um réttarstöðu samkynhneigðra.

Í yfirlýsingunni segir að hjónaband sé sáttmáli á milli einnar konu og eins karls. Þá er breytingartillögu við frumvarpið, sem felur í sér heimild forstöðumanna trúfélaga til hjúskaparvígslu tveggja einstaklinga af sama kyni, alfarið hafnað.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Við undirrituð lýsum eindregnum stuðningi við biskup Íslands, þegar hann segir að hjónaband sé sáttmáli milli eins karls og einnar konu, og teljum að nú beri að standa vörð um hina upprunalegu fjölskyldumynd og velferð fjölskyldna og barna í íslensku samfélagi. Um leið hörmum við það fráhvarf frá kristnum siðferðisgildum sem ríkistjórn Íslands sýnir með frumvarpi til laga um réttarstöðu samkynhneigðra. Frá því að þjóðin gerðist kristin, hefur hún haft fyrrnefnd siðferðisgildi sem grundvallarviðmiðun í löggjöf landsins. Að lögleiða aðra skipan er fráhvarf frá skíru og kláru boði Heilagrar ritningar og í andstöðu við siðfræði kristinnar kirkju í heild sinni.

    Með tilvísun til þeirra greina frumvarpsins sem fjalla um ættleiðingar barna til para í staðfestri samvist og tæknifrjóvgun hjá konum í staðfestri samvist, þá teljum við í ljósi kristinnar grundvallarafstöðu okkar hvort tveggja vera fráleitt. Við teljum að réttur barna sé skertur með nefndu frumvarpi og samband barns við föður og móður ekki virt. Við minnum á að samkvæmt upphafsgrein Barnalaganna, nr. 76/2003, á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína.

    Breytingartillögu við frumvarpið, sem felur í sér heimild forstöðumanna trúfélaga til hjúskaparvígslu tveggja einstaklinga af sama kyni, teljum við fráleita og höfnum henni alfarið. Rök okkar eru þau sömu og áður: Hin boðaða löggjöf fer þvert gegn kristinni kenningu um hjónabandið og samband foreldra og barns.

    Þau trúfélög og trúarhópar sem standa að þessu (og gera það í heild) eru:

    Hvítasunnukirkjan Fíladelfía, Reykjavík,
    Hvítasunnukirkjan í Keflavík,
    Hvítasunnukirkjan á Akureyri,
    Hvítasunnukirkjan Betel, Vestmannaeyjum,
    Hvítasunnukirkjan Salem, Ísafirði,
    Hvítasunnukirkjan Selfossi,
    Hvítasunnukirkjan Kirkjulækjarkoti,
    Íslenska Kristskirkjan, Grafarvogi,
    Fríkirkjan Kefas,
    Krossinn í Kópavogi,
    Fríkirkjan Vegurinn,
    Betanía, kristið samfélag,
    Hjálpræðisherinn á Íslandi,
    Sjónarhæðarsöfnuður, Akureyri,
    Akurinn, kristið samfélag, Kópavogi,
    Samfélag trúaðra, Reykjavík,
    Samfélagið Hörgshlíð 12,
    Vinyard, kristið samfélag, Reykjavík,
    Aðventkirkjan á Íslandi,
    Rússneska rétttrúnaðarkirkjan: Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík (Ísland prestur Timur Zolotuskiy)

    Og þar að auki einstaklingar í (öðrum) trúfélögum:
    Anton Ingimarsson, verslunarstjóri.
    Dr. Arngrímur Jónsson, fyrrv. sóknarprestur
    Eva S. Einarsdóttir, ljósmóðir í Kópavogi
    Flóki Kristinsson, sóknarprestur á Hvanneyri
    Guðlaugur L. Aðalsteinsson, og k.h. Kolbrún B. Jónsdóttir
    Guðmundur Óli Ólafsson, fyrrv. prófastur í Skálholti
    Guðmundur Pálsson, sérfræðingur í heimilislækningum
    Gústaf Níelsson, sagnfræðingur í Reykjavík og k.h. Bergþóra Sigurbjörnsdóttir, forstjóri
    Halldór S. Gröndal, fyrrv. sóknarprestur
    Jakob Rolland, kanslari kaþólsku kirkjunnar
    Jón Oddgeir Guðmundsson, Akureyri
    Jón Valur Jensson, guðfræðingur í Reykjavík
    Jón Rafn Jóhannsson OCDS (Karmelítareglunni, kaþ. kirkjunni)
    Laufey Jensdóttir, húsmóðir
    Lilja Kristjánsdóttir húsmóðir, fyrrv. kennari
    Dr. Loftur R. Gissurarson, gæðastjóri OR, Mosfellsbæ
    Patrick Breen, sóknarprestur kaþólskra á Akureyri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert