Neysluútgjöld á heimili árin 2002–2004 hafa hækkað um 9,3% frá tímabilinu 2001–2003. Á sama tíma hefur meðalstærð heimilis minnkað úr 2,62 einstaklingum í 2,58 og hafa útgjöld á mann því hækkað um 10,6%. Þetta kemur fram í neyslukönnun sem greint er frá á vef Hagstofu Íslands.
Hlutfall matar og drykkjarvöru í heimilisútgjöldum heldur áfram að lækka, er nú 14,4% en var 15,2%. Hlutfall húsnæðis, hita og rafmagns hefur hækkað úr 22,5% í 22,9% af heildarútgjöldunum og hlutur ferða og flutninga jókst úr 12,9% í 15,7%, aðallega vegna aukins innflutnings á nýjum bílum.
Ráðstöfunartekjur meðalheimilisins eru um 340 þúsund krónur á mánuði, tæpar 132 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa eru hærri en útgjöld þeirra, en neysluútgjöldin eru að meðaltali um 94% af ráðstöfunartekjum.
Í úrtaki voru um 3.600 heimili, 1.888 þeirra tóku þátt í rannsókninni og var svörun því um 53%.
Rannsókn á útgjöldum heimilanna