Beint áætlunarflug Iceland Express frá Akureyri til Kaupmannahafnar hefst þann 30. maí næstkomandi. Frá þeim degi og fram á haustið verður flogið tvisvar í viku milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, á þriðjudögum og fimmtudögum. Þessar fyrirætlanir flugfélagsins voru kynntar á Akureyri í dag.
„Forsvarsmenn Iceland Express búast við því að Akureyringar og Norðlendingar taki þessari nýbreytni fagnandi, enda verður nú jafnvel ódýrara að fljúga til Kaupmannahafnar en Reykjavíkur," að því er segir í fréttatilkynningu frá Iceland Express.
Grunnverð farmiða milli höfuðstaða Norðurlands og Danmerkur er það sama og á öllum leiðum Iceland Express, 7.995 kr. aðra leiðina og hefst sala í byrjun næstu viku.
Flogið verður í samskonar flugvélum og notaðar eru á öðrum leiðum félagsins.
Önnur nýbreytni er sú að farmiðakerfi Iceland Express gerir farþegum frá Akureyri til Kaupmannahafnar kleift að fljúga til landsins frá öðrum áfangastöðum Iceland Express í Evrópu ef það hentar þeim eða lenda í Keflavík á heimleiðinni ef þeir vilja. Einnig er hægt að fljúga út frá Keflavík og lenda á Akureyri þegar heim er komið, að því er segir í fréttatilkynningu.