„Þetta tók aðeins örskamma stund“; lögregla leitar enn vopnaðs ræningja

Rannsóknarlögreglumaður rannsakar fingraför í afgreiðslu HHÍ við Tjarnargötu í dag.
Rannsóknarlögreglumaður rannsakar fingraför í afgreiðslu HHÍ við Tjarnargötu í dag. mbl.is/Júlíus

Að sögn Brynjólfs Sigurðssonar, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, eru allir starfsmenn happdrættisins heilir á húfi eftir atburð dagsins en grímuklæddur maður vopnaður skotvopni réðist inn í afgreiðslu happdrættisins við Tjarnargötu í Reykjavík og rændi peningum úr peningakassa. Brynjólfur segir slíkt hafi aldrei fyrr gerst í 72ja ára sögu happdrættisins.

Aðspurður segir Brynjólfur það ekki liggja fyrir hversu mikið fé ræninginn hafi komist á brott með úr ráninu. Það hafi þó ekki verið há upphæð.

„Við gætum þess að hafa eins lítið af peningum í kössunum og mögulegt er,“ segir Brynjólfur og bætir því við að það muni liggja fyrir við uppgjör í kvöld hver fjárhæðin var.

Brynjólfur segir ræningjann hafa verið snaran í snúningum og gengið hratt til verks. Brynjólfur var staddur á hæðinni fyrir ofan og varð því ekki vitni að sjálfu ráninu. Hinsvegar hafi hann séð myndbandsupptöku af atburðinum. „Hann gekk mjög rakleitt til verks. Hann virðist hafa komið á reiðhjóli og skilur það eftir við dyrnar,“ segir Brynjólfur varðandi það sem sást á myndbandinu. „Svo gengur hann beint inn og rakleitt inn fyrir afgreiðsluborðið og beinir byssu að einni starfsstúlkunni, sem var að tala í símann. Hann tilkynnir henni að um rán sé að ræða. Síðan gengur hann rakleitt að einum peningakassanna og opnar hann eins og hann væri þaulvanur gjaldkeri, hirðir peningana og gengur beint út. Þannig að þetta tók aðeins örskamma stund.“

Enginn hefur enn verið handtekinn í tengslum við ránið að sögn lögreglu. Unnið er að rannsókn málsins og kannar lögregla nú ýmsar vísbendingar en ekkert sem hægt er að staðfesta að svo stöddu.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að lögregla bregðist ávallt við eftir aðstæðum hverju sinni. Í ljósi þess að um vopnað rán var að ræða hafi lögregla farið að öllu með gát. Einnig njóti lögregla aðstoðar sérsveitarinnar í slíkum tilvikum og hafi engin undantekning verið á því nú.

Að sögn Brynjólfs telur starfsfólkið ljóst að um karlmann hafi verið að ræða en hann var grímuklæddur svo ekki væri hægt að bera kennsl á hann.

Aðspurður segir Brynjólfur að farið verði yfir öryggismál í tengslum við atburðinn og jafnvel með sérfræðingum varðandi það hvort auka megi varnir á skrifstofunni. „En við höfum gætt þess að vera ekki með mikið fé þarna frammi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert