Allsherjarnefnd Alþingis hefur lokið umfjöllun um frumvarp um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar þar sem m.a. er gert ráð fyrir að kirkjuþing hafi vald til að skipa kjördæmum sínum með sama hætti og sóknum, prestaköllum og prófastdæmum. Fulltrúi Frjálslynda flokksins í nefndinni skilaði séráliti og segir að flokksmenn séu fylgjandi því að kirkja og ríki verði aðskilin. Því sé það vart við hæfi að alþingismenn séu að fjalla um innri starfsreglur einstakra trúfélaga.
Með frumvarpinu er lagt til að kirkjuþing hafi vald til að skipa kjördæmum sínum með sama hætti og sóknum, prestaköllum og prófastdæmum. Þá er lagt til að kirkjuþing hafi vald til að ákveða fjölda fulltrúa á kirkjuþingi í stað þess að slíkt sé lögbundið. Auk þess er lögð til sú breyting á kjöri fulltrúa á kirkjuþingi, sem samkvæmt gildandi lögum eru prestar og leikmenn úr hópi sóknarnefndarfólks, að í stað orðsins „prestar“ verði orðið „vígðir“ notað. Þar sem djáknar eru vígðir felur breytingin í sér að þeir teljast ekki lengur til leikmanna á kirkjuþingi. Skulu leikmenn verða fleiri á kirkjuþingi en vígðir.
Meirihluti allsherjarnefndar leggur ekki til neinar efnislegar breytingar á frumvarpinu.