Tvær misheppnaðar ránstilraunir hjá þremur unglingspiltum í Kópavogi

Þrír unglingspiltar gerðu tilraun til þess að hrifsa veski af konu sem var að taka út fé í hraðbanka í Smáranum í Kópavogi gærkvöldi. Að sögn lögreglunnar í Kópavogi snerist konan til varnar og hlupu piltarnir á brott tómhentir. Piltarnir fóru því næst inn á aðstöðu dagmæðra við Digranesveg og gerðu tilraun til þess að ræna konurnar sem þar voru.

Þær snerust hinsvegar líka til varnar og náðu einum piltanna. Félagar hans gripu þá til þess ráðs að ógna þeim með skærum og slepptu þær því piltinum. Þeir komust á undan.

Fyrsta tilkynningin barst lögreglu um kl. 21.24 í gærkvöldi en sú seinni skömmu síðar.

Lögregla bar kennsl piltana eftir að hafa skoðað myndabandsupptöku sem tekinn hafði verið upp við Smárann. Piltarnir, sem eru 14 og 15 ára gamlir, fundust skömmu síðar og voru færðir til skýrslutöku.

Rætt var við foreldra þeirra og verður mál þeirra sent til barnaverndarnefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert