Hópakstur í minningu fólks sem látist hefur í umferðinni

Mikill fjöldi ökumanna tók í gærkvöldi þátt í hópakstri í Reykjavík, sem nokkur bifreiða- og vélhjólasamtök stóðu að. Að sögn Vilhelmínu Evu Vilhjálmsdóttur, eins stofnanda bílaklúbbsins Live2Cruize, var ákveðið að efna til akstursins í minningu þeirra sem látið hafa lífið í umferðarslysum síðastliðin ár og til að minna á þörf fyrir betri aðstæður til aksturs og bætta ökukennslu á landinu.

Haldið var af stað úr miðbænum klukkan 20 í gærkvöldi og Sæbrautin ekin í lögreglufylgd. Ekið var allt að brúnni við Ártúnsbrekkuna og svo aftur niður í bæ. Haldið var í Borgartún þar sem fólk gat lagt bílum sínum allt frá plani Heimilistækja niður að bílastæðum Nýherja og hjá fyrirtækjum þar í kring. Bílanaust útveguðu kerti sem dreift var og kveikt var á kertunum á Sæbrautinni.

Vilhelmína Eva benti í samtali við Morgunblaðið í gær á að undanfarnar vikur hefðu orðið þrjú dauðaslys í umferðinni. Tímabært væri að auka ökukennslu ungs fólks og tryggja að það kynni að bregðast við mismunandi aðstæðum í veðri og á vegum.

Þær upplýsingar fengust hjá lögreglunni að hópaksturinn hefði gengið vel fyrir sig. Nokkrar umferðartafir hefðu myndast við miðbæinn vegna akstursins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert