Framhaldsskólanemar og fleiri hafa á undanförnum dögum sent Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, póstkort þar sem hún er hvött til að draga skerðingaráform sín á framhaldsskólastiginu til baka.
Í tilkynningu frá Hagsmunaráði íslenskra framhaldsskólanema segir, að menntamálaráðherra hafi hunsað kröfur námsmanna í hvívetna og það geti þeir ekki látið viðgangast. Klukkan ellefu þann þann 8. mars muni framhaldsskólanemendur hittast á Austurvelli og mótmæla ólýðræðislegum vinnubrögðum og meingölluðum áætlunum menntamálaráðherra varðandi styttingu náms til stúdentsprófs.