Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að framlengja gæsluvarðhald til 21. apríl yfir manni, sem grunaður er um lífshættulega líkamsárás þar sem beitt var hnífi. Hæstiréttur felldi hins vegar úr gildi úrskurð héraðsdóms um að framlengja gæsluvarðhald annars manns sem einnig er grunaður um að hafa beitt hnífi.
Um er að ræða tvö mál, sem komu upp í Reykjavík aðfaranótt 4. mars og aðfaranótt 5. mars. Það fyrra var mun alvarlegra en þá var maður handtekinn grunaður um að hafa veitt öðrum manni tvo alvarlega og lífshættulega stunguáverka með eggvopni á veitingahúsi í Reykjavík.
Sá sem fyrir árásinni varð sagðist hafa komið veitingastað með tveimur vinum sínum. Þau hafi setið við borð í veitingahúsinu þegar piltur nokkur hafi komið til hans og farið að ásaka hann um að hafa brotið alvarlega gegn frænda hans. Segist hann hafa sagt piltinum að hann kannaðist ekki við atvikið. Stuttu síðar hafi einhver komið aftan að honum og slegið hann í höfuð og líkama svo hann féll í gólfið. Árásinni hafi lokið skyndilega. Hann hafi hins vegar ekki áttað sig á því að hann hefði verið stunginn fyrr en síðar.
Árásarmaðurinn var handtekinn daginn eftir. Sagði hann að kunningi hans hefði sagt sér að maður, sem var inni á staðnum, hafi brotið alvarlega gegn bróður hans og vinkonu hans. Sagðist hann hafa hafa rætt þetta við manninn en farið síðan og talað við kunningja sinn á ný. Kunninginn hafi síðan rokið í manninn og slegið hann nokkrum sinnum. Kærði segist hafa haldið á vasahníf sem var um 7-8 cm langur. Hann hafi verið að fikta með hnífinn en þegar kunningi hans hafi rokið í manninn hafi hann farið og stungið manninn tvisvar í bakið. Þegar hann uppgötvaði hvað hann hafi gert hafi hann gengið út.
Héraðsdómur sagði í úrskurði sínum, að samkvæmt gögnum málsins sé sterkur grunur um að framið hafi framið alvarlegt brot þar sem beitt var lífshættulegu vopni. Geti brotið varðað allt að 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu fangelsi teljist sök sönnuð. Sé brotið þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að árásarmaðurinn sæti áfram gæsluvarðhaldi. Þessar forsendur staðfesti Hæstiréttur.
Hitt málið kom upp nóttina eftir en þá var maður handtekinn grunaður um að hafa stungið annan mann fimm sinnum með litlum vasahníf með 4-5 sentimetra löngu blaði. Árásarmaðurinn viðurkenndi að hafa lent í átökum við hinn manninn inni á veitingahúsi og átökin borist inn í port sunnan við veitingahúsið. Sagðist hann hafa tekið hníf, sem hann var með í vasa sínum, og stungið hinn manninn tvisvar með hnífnum en útilokaði ekki að hann hafi stungið hann oftar.
Hæstiréttur segir að sárin, sem sá sem á var ráðist hlaut, hafi verið staðdeyfð og saumuð. Ekki verði séð að atlagan né áverkarnir hafi veri þess eðlis að skilyrði séu fyrir að árásarmaðurinn sæti gæsluvarðhaldi.