Fallið frá takmörkunum á vinnumarkaðsaðgangi

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að framlengja ekki fyrirvara við frjálsri för …
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að framlengja ekki fyrirvara við frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun lagafrumvarp Jóns Kristjánssonar, félagsmálaráðherra, um að aflétt verði takmörkunum á innflutningi vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins frá og með 1. maí. Samkvæmt því verður ríkisborgurum viðkomandi ríkja heimilt að koma hingað í atvinnuleit og ráða sig í vinnu án atvinnuleyfis en vinnuveitendur verða að tilkynna um ráðningu til Vinnumálastofnunar.

Samhliða þessu var ákveðið að stofna starfshóp, skipaðan fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar, til að fara yfir málefni útlendinga á íslenska vinnumarkaðnum.

Til þessa hafa gilt hér á landi takmarkanir á frjálsri för launafólks frá Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Slóveníu, Slóvakíu, Tékklandi og Ungverjalandi, sem gengu í Evrópusambandið árið 2004.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu segir, að svo virðist sem nokkur hreyfanleiki sé meðal ríkisborgara þessara ríkja enda atvinnuleysi þar nokkuð. Þyki því ástæða vera til að atvinnurekendur tilkynni til Vinnumálastofnunar um ráðningu ríkisborgara frá þessum ríkjum þar sem fram koma nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang ásamt nafni útlendingsins, kennitölu og aðsetri hans hér á landi. Gert er ráð fyrir að ráðningasamningur fylgi tilkynningunni þar sem útlendingnum eru tryggð laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Miðað er við að tilkynningin berist stofnuninni innan tíu virkra daga frá ráðningu. Skal Vinnumálastofnun halda skrá yfir þá útlendinga sem koma frá framangreindum ríkjum til að starfa hér á landi. Ráðuneytið segir, að þessi skráning komi ekki í veg fyrir að umræddir ríkisborgarar þurfa að sækja um EES dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.

Félagsmálaráðuneytið segir, að tilgangur þessarar tilkynningarskyldu atvinnurekanda sé að fylgjast með framvindu mála svo unnt sé að hafa yfirsýn yfir þá er koma hingað til landsins meðal annars til að gæta þess að þeir njóti þeirra réttinda er gilda á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt sé mikilvægt að meta áhrif stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins sem og að tryggja að unnt sé að bregðast í tíma við aðstæðum sem kunna að leiða til alvarlegrar röskunar á innlendum vinnumarkaði. Þá sé litið til þess að slík skráning geri stjórnvöldum kleift að veita þessum útlendingum nauðsynlegar upplýsingar um lög og reglur er gilda um störf á innlendum vinnumarkaði.

Tilkynning frá félagsmálaráðuneyti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert