Forsvarsmenn Verkalýðsfélags Akraness gagnrýna harðlega þá ákvörðun stjórnvalda að framlengja ekki fyrirvara við frjálst flæði launafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Segir á heimasíðu félagsins, að svartur dagur sé í dag hjá íslenskum launþegum vegna þessarar ákvörðunar.
Spurt er hví í ósköpunum sé verið að afnema takmarkanir á frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkum ESS á sama tíma og það blasi við að 600 Íslendingar eru að missa atvinnu sína á Keflavíkurflugvelli.
Þá segir á heimasíðu félagsins að frjálst flæði erlends vinnuafls muni stórskaða það markaðslaunakerfi, sem hafi viðgengist á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum. „Reynslan sýnir að það eru til atvinnurekendur sem víla ekki fyrir sér að misbjóða erlendu vinnuafli bæði hvað varðar aðbúnað sem og önnur launakjör," segir síðan.