Markmiðin þau sömu og ASÍ hefur lagt áherslu á

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að þó að í frumvarpi félagsmálaráðherra sé ekki um að ræða sömu nálgun varðandi aðgengi ríkisborgara nýju aðildarlandanna að vinnumarkaðinum og ASÍ lagði upp með séu markmiðin í grundvallaratriðum þau sömu. Því megi segja að ekki sé eðlismunur á þeim leiðum sem ASÍ hefur lagt áherslu á og þeim sem farnar eru í frumvarpinu.

ASÍ hefur lagt áherslu á að tryggt yrði að yfirlit fengist yfir það sem væri að gerast á vinnumarkaðinum, hversu stórir þeir hópar væru sem hingað koma frá nýju aðildarríkjunum og við hvað þeir störfuðu. Einnig að tryggt yrði að fyrir lægju upplýsingar um ráðningarkjör þessara einstaklinga, skv. ráðningarsamningi, þannig að unnt væri að fylgjast með því að þeir njóti þeirra kjara sem þeim ber.

Að sögn Halldórs má segja að þessi atriði sé að finna í frumvarpinu, gert sé ráð fyrir að atvinnurekendur tilkynni til Vinnumálastofnunar alla þá sem ráðnir eru frá nýju aðildarríkjunum og að jafnframt verði lagðir fram ráðningarsamningar.

Vilja endurskoða reglur vegna starfa útlendinga hér

ASÍ leggur áherslu á að staðan á vinnumarkaðinum í heild sinni verði skoðuð en samtökin hafa miklar áhyggjur af málefnum erlendra starfsmanna sem hingað koma á grundvelli þjónustusamninga í gegnum verktaka og undirverktakafyrirtæki.

ASÍ hefur samþykkt áhersluatriði sem samtökin ætla að fylgja eftir í starfshópnum sem félagsmálaráðherra mun skipa. Þar er m.a. lögð áhersla á að starfshópurinn endurskoði reglur og framkvæmd vegna starfa útlendinga á íslenskum vinnumarkaði með það að markmiði að gera löggjöf og stjórnsýslu í þessum málaflokki einfaldari og skilvirkari. Haft verði m.a. að leiðarljósi að beint ráðningarsamband milli erlends launafólks og fyrirtækja sem það starfar fyrir verði meginregla í samræmi við það sem almennt gildir á íslenskum vinnumarkaði. Fyrirtæki sem nýta erlent vinnuafl vegna framleiðslu sinnar og þjónustu, greiði laun og önnur starfskjör í samræmi það sem gildir almennt á íslenskum vinnumarkaði. Fullnægjandi úrræði séu til staðar til að upplýsa og fylgja eftir að kjarasamningar og lög séu haldin.

Að erlend fyrirtæki sem hafa launafólk í starfi hér á landi virði reglur, venjur og hefðir á íslenskum vinnumarkaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert