Háskólinn í Reykjavík leigir húsnæði Morgunblaðsins

Hús Morgunblaðsins í Kringlunni
Hús Morgunblaðsins í Kringlunni mbl.is/Golli

Háskólinn í Reykjavík (HR) hefur gengið frá leigusamningi við Klasa hf. sem er eigandi húsnæðis Morgunblaðsins, Kringlunni 1, um leigu á öllu Morgunblaðshúsinu, sem er um 4.700 fermetrar að stærð, þar til háskólinn flytur í nýtt húsnæði í Vatnsmýrinni árið 2009. Húsnæðið verður afhent HR í júlí nk., þegar Morgunblaðið flytur ritstjórnarskrifstofur sínar og starfsemi blaðsins í Hádegismóa 2.

Með leigu á Morgunblaðshúsinu verður háskólinn með starfsemi á þremur stöðum. Í Ofanleiti 2 verður viðskiptadeild, lagadeild og kennslufræði- og lýðheilsudeild til húsa, á Höfðabakka verður tæknifræði- og frumgreinadeild, hluti viðskiptadeildar, lífeindafræði og geislafræði og tilraunastofur til verklegrar kennslu og Morgunblaðshúsið, Kringlunni 1, mun hýsa verkfræði- og tölvunarfræðisvið. Samtals verður húsnæði skólans liðlega 20.000 fermetrar og aðstaða fyrir nemendur og kennara mun batna verulega. Auk þess er HR í samstarfi við Íþróttaakademíuna í Reykjanesbæ.

Á fyrstu og annarri hæð í Morgunblaðshúsinu verða nemendur og kennarar í tölvunarfræði og verkfræði, tækni- og verkfræðideildar HR til húsa. Þar verða kennslustofur, rannsóknaaðstaða, rannsóknastofnanir á þessu sviði svo og vinnuaðstaða fyrir kennara og nemendur. Þessu fylgja nokkrar breytingar einkum á fyrstu hæð hússins þar sem innréttaðar verða kennslustofur.

Á þriðju og fjórðu hæð Morgunblaðshússins, mun HR opna Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins á um 700 fermetrum og verður þar leigð út aðstaða fyrir einstaklinga og fyrirtæki, sem starfa að nýsköpun, rannsóknum og öðru frumkvöðlastarfi, að því er segir í tilkynningu frá HR.

Í haust verða nemendur HR um 2.800 og gert er ráð fyrir að þeir verði orðnir um 3.500 haustið 2009, þegar skólinn flytur starfsemi sína í liðlega 30.000 fermetra húsnæði við rætur Öskjuhlíðar í Vatnsmýrinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert