Síminn og 365 miðlar ná samningi um sjónvarpsdreifingu

Forsvarsmenn 365 miðla og Símans kynna samkomulagið á blaðamannafundi í …
Forsvarsmenn 365 miðla og Símans kynna samkomulagið á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Júlíus

Síminn og 365 miðlar hafa gert með sér samkomulag um að báðir aðilar dreifi íslenskum sjónvarpsrásum hvors annars. Með samkomulaginu fá viðskiptavinir beggja félaganna aðgang að öllum íslenskum sjónvarpsrásum. Forsvarsmenn fyrirtækjanna lögðu áherslu á, að samkomulagið væri til hagsbóta fyrir neytendur og einnig njóti fyrirtækin góðs af því vegna aukinnar dreifingar.

Samkomulagið var kynnt á blaðamannafundi í dag. Það á bæði við um sjónvarpsrásir, sem sendar eru út í opinni og lokaðri dagskrá. Undir það falla stöðvarnar Stöð 2, Sirkus, Skjár einn, NFS, Enski boltinn, Sýn, Sýn extra, Stöð 2 Bíó, Stöð 2+, Skjár einn+, Sýn+ og Sirkus.

Ákvæði í samkomulaginu kveður á um að það eigi einnig við um nýjar sjónvarpsrásir beggja aðila og væntanlegt ADSL sjónvarp Og Vodafone. Fyrirtækin hafa átt í deilum um dreifingu sjónvarpsmerkja hvor annars í kjölfar ákvörðunar Samkeppnisráðs á síðasta ári þar sem sett voru skilyrði fyrir samruna fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækja.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, sagði að samkomulagið væri að hluta til komið vegna tilmæla Samkeppniseftirlitsins þess efnis að Síminn dreifði sjónvarpsmerki 365 miðla. Náðst hefði niðurstaða í vetur varðandi tæknina og nú lægi samkomulag við viðskiptahliðina fyrir.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, sagði að með þessu samkomulagi væri fyrirtækið að staðsetja sig skýrar sem efnisveita og samningurinn væri á viðskiptalegum grundvelli. Breytingin væri sú, að nú yrði samkeppni fyrirtækjanna ekki lengur um myndlykla heldur um dagskrá og svo yrði áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert