Átta tíma seinkun á flugi Iceland Express til London

Um 80 farþegar sem bókað áttu far með morgunvél Iceland Express til Lundúna komast ekki þangað fyrr en síðdegis vegna bilunar í flugvél. Einn farþegi er afar ósáttur við framkomu fyrirtækisins og segir aðbúnað hafa verið slakan, en þetta kemur fram á fréttavef RÚV.

Fram kemur að flugvélin átti að fara klukkan hálf átta í morgun en einn af hreyflum vélarinnar bilaði og því varð að fá aðra vél leigða frá Bretlandi.

Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri Iceland Express, sagði í samtali við fréttastofu Útvarps að allir farþegar fengju mat á kostnað fyrirtækisins og auk þess aðgang að síma og nettengdri tölvu til að gera ráðstafanir til að breyta ferðum sínum. Samkvæmt samevrópskum reglum ber félagið hins vegar ekki ábyrgð á því tjóni sem farþegar verða fyrir ef þeir missa af tengiflugi vegna seinkunar, að því er segir á fréttavef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert