Stuðningur við þjóðernissinnaðan flokk kannaður

Þriðjungur aðspurðra í nýlegri könnun Gallup sagðist geta hugsað sér að kjósa stjórnmálaflokk með þjóðernisívafi.

Ásgeir Hannes Eiríksson, fyrrverandi alþingismaður, fékk Gallup til að gera fyrir sig könnunina. Hann segist ekki ætla að stofna slíkan flokk sjálfur, en kveðst myndi styðja dyggilega við bakið á þeim sem hygðust nýta sér niðurstöður könnunarinnar til að stofna flokk sem hefði það m.a. að markmiði að fækka innflytjendum til Íslands, sérstaklega frá fjarlægari menningarheimum. Þetta kom fram í fréttum og Kastljósi Sjónvarps í gærkvöldi.

Flokkurinn myndi samkvæmt könnun Gallup aðallega sækja fylgi sitt til ungs fólks og fólks sem einungis hefur grunnskólamenntun. Þá sækir hann mest fylgi sitt í nágrannabyggðir Reykjavíkur.

Í viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins sagðist Ásgeir Hannes vilja draga úr "flóði innflytjenda" til landsins. Sagðist hann telja að aukinn fjöldi innflytjenda yrði til þess að auka átök og glæpastarfsemi hér á landi. "Ég vil náttúrulega að Íslendingar njóti Íslands ... og hafi hér forgang í sínu landi," sagði Ásgeir Hannes m.a. og bætti við að þegar frelsi til fólksflutninga innan ESB kæmist á, 1. maí næstkomandi, myndi innflytjendavandamálið fyrst verða að veruleika, þegar fólk frá Austur-Evrópu færi að streyma yfir Vestur-Evrópu og þá einnig hingað til lands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert