Deilt um dagskrá þingsins á Alþingi

Deilt er nú á Alþingi í dag um dagskrá þingsins í dag. Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, mótmælti því að dagskráin í dag væri ekki í nokkru samráði við þingflokksformenn. Sagði hún m.a. nauðsynlegt að afgreiða tiltekin mál frá félagsmálaráðherra til að koma þeim til umsagnar utan þingsins. Nú ætti hins vegar að hefjast aftur umræða um frumvarp um Ríkisútvarpið, en um það frumvarp væri vaxandi ágreiningur og ekki bara í þingsölum.

Þá lagði Margrét áherslu á að frumvarpið um Ríkisútvarpið verði tekið aftur til umfjöllunar í menntamálanefnd, helst án fara en ekki síðar en á milli annarrar og þriðju umræðu. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, sagðist enga ástæðu sjá til þess þar sem ekkert nýtt hefði komið fram um málið í umræðunni til þessa þótt þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu sumir talað klukkustundum saman.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður VG, sagði að krafa væri um að umdeildum málum ríkisstjórnarinnar verði vikið til hliðar og fram fari umræða um þau mál sem brenna á þjóðinni, svo sem efnahagsmál, skattamál og mál stofnana sem sinna öldruðum og fötluðum svo þau geti greitt mannsæmandi laun.

Sólveig Pétursdóttir, forseti þingsins, sagði sérkennilegt að koma fram með ákveðnar kröfur um dagskrá Alþingis þegar búið væri að boða fund með formönnum þingflokka í hádegishléi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert