Breið pólitísk sátt um fjölmiðlafrumvarpið

Menntamálaráðherra og höfundar frumvarpsins kynntu það í gær.
Menntamálaráðherra og höfundar frumvarpsins kynntu það í gær. mbl.is/Sverrir

Breið pólitísk sátt virðist vera um fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra sem kynnt var í gær og samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna. Gert er ráð fyrir að ný fjölmiðlalög samkvæmt frumvarpinu taki gildi 1. ágúst næstkomandi.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þremur lagabálkum, einkum útvarpslögum en einnig lögum um prentrétt og að lokum ein breyting á samkeppnislögum fyrirtækja.

Eitt veigamesta atriðið sem boðað er í fjölmiðlafrumvarpinu snýst um eignarhald á fjölmiðlum. Þannig er eignarhaldið takmarkað við 25% í fjölmiðlafyrirtæki sem hefur náð þriðjungs markaðshlutdeild.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagðist með frumvarpinu vonast til að sátt næðist um hið mikilvæga umhverfi sem fjölmiðlar vinna í og tryggja þyrfti fjölbreyttan fjölmiðlamarkað.

„Við þurfum að tryggja fjölbreyttan fjölmiðlamarkað og tryggja að rekstrargrundvöllur þeirra sé traustur um leið og við stuðlum að því að treysta neytendaverndina sem er að mínu mati mikilvæg,“ sagði Þorgerður.

Gagnsæi og sjálfstæði
Meginefnisatriði frumvarpsins varða, auk eignarhaldsins, gagnsæi um eignarhald, aðgreiningu ólíkra miðla við leyfisveitingu,reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði, stjórnsýslu og breytingará samkeppnislögum.

Fulltrúar allra stjórnmálaflokka virðast almennt sáttir við frumvarpið með nokkrum fyrirvörum þó. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði frumvarpið vera í samræmi við niðurstöðu fjölmiðlanefndarinnarog því gæti náðst sátt um það. Hún taldi mikilvægt að menn kynntu sér frumvarpið vel auk þess sem heyra ætti í hagsmunaaðilum. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, taldi fjölmiðlafrumvarpið gott og að öllu leyti til mikilla bóta að fá löggjöf í þessa veru. Hún sagði þaðljóst að aðgerða hefði verið þörf, eins og niðurstöður fjölmiðlanefndarinnar hefðu sýnt.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, sagðist ekki eiga von á miklum deilum um frumvarpið. „Þetta er nokkuð sem fólk hefur vitað frá vorinu 2005 að við ættum yfir höfði okkar. Aðlögunartími sem gefinn er að breytingu varðandi eignarhluta er langur og þarna er alls meðalhófs gætt.“

„Það er kominn tími til að ljúka þessu máli,“ sagði Magnús Stefánsson, starfandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hann sagðist vilja sjá frumvarpið verða að lögum 1. ágúst næstkomandi en benti á að allt væri það háð samstöðu alþingismanna.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagðist vera mjög ánægður með fjölmiðlafrumvarpið. Hann væri afskaplega sáttur við það og vonaðist til að það yrði afgreitt áður en þingstörfum lyki. Frumvarpið hefði verið kynnt innan þingflokks Frjálslyndra og þar höfðu ekki komið fram nein andmæli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert