Femínistafélag Íslands hlýtur Jafnréttisverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2006. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt en til þeirra er stofnað af jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á því sem vel er gert og vera þeim hvatning sem vinna einarðlega að jafnréttismálum. Fjölmargar tilnefningar bárust og mátti í þeirri flóru finna vefsíður, námsbrautir í háskóla, félög og einstaklinga og kom verkfræðideild Háskóla Íslands til að mynda sterklega til greina hjá dómnefnd.
Dómnefnd sem lagði mat á tilnefningar var einhuga í afstöðu sinni en Femínistafélag Íslands hefur með ötulli baráttu og opinskárri umfjöllun á ýmsum vettvangi unnið að jafnrétti kynja á mörgum sviðum. Þar má nefna vefsíðu félagsins, virkan póstlista, ýmsar sýningar og uppákomur sem ætlað er að vinna gegn staðalímyndum kynjanna og fegurðardýrkun. Félagið hefur haldið ,,karlmennskukvöld” þar sem ýmsir fyrirlesarar hafa rætt ofbeldi, föðurhlutverkið, fyrirmyndir, fæðingarorlof, jafnréttissinnaða karla, vændi o.fl. Átakið. ,,Karlmenn segja NEI við nauðgunum hefur verið skipulagt af Femínistafélaginu fyrir verslunarmannahelgar undanfarinna ára. Femínistafélagið hefur sinnt fræðslu um jafnréttismál í skólum, félagar þess haldið erindi á fjöldamörgum málþingum og tekið virkan þátt í opinberri umfjöllun um jafnréttismál.
Félagið hefur á stundum farið óhefðbundnar leiðir til að vekja athygli á jafnréttismálum og má þar nefna útgáfu krónu konunnar en á hana vantar 35% sem er í takt við þann tekjumismun sem er á milli karla og kvenna. Einnig má nefna bleiku börurnar sem nýr forsætisráðherra fékk stútfullar af bókum um jafnréttismál. og femínisma. Félagið hefur átt samstarf við auglýsendur til að hamla gegn klámi í auglýsingum.
Talskona Femínistafélags Íslands, Katrín Anna Guðmundsdóttir, tók við verðlaununum í Höfða í morgun, en verðlaunin eru 150.000 krónur.