Kona sem var farþegi í Titanic látin

Titanic sökk í jómfrúarferð sinni árið 1912.
Titanic sökk í jómfrúarferð sinni árið 1912.

Lillian Gertrud Asplund, sem var um borð í farþegaskipinu Titanic þegar það rakst á ísjaka og sökk árið 1912, lést í gær, 99 ára að aldri. Asplund var 5 ára þegar Titanic sökk og hún missti föður sinn og þrjá bræður í slysinu en móðir hennar og bróðir komust lífs af.

Asplund var síðasti farþeginn, sem mundi eftir slysinu en hún vildi ekki tala um það opinberlega. Að minnsta kosti tvær enskar konur, sem voru um borð í Titanic, eru enn á lífi en þær voru báðar á fyrsta aldursári þegar skipið fórst.

Asplundfjölskyldan fór um borð í Titanic í Southamton á Englandi. Hún var á leið aftur til Worcester í Massachusetts eftir að hafa dvalið í nokkur ár í Svíþjóð.

Selma, móðir Lillian, lýsti slysinu í viðtali við blaðið Worcester Telegram & Gazette skömmu eftir að hún kom með börnin tvö þangað. Hún sagði að fjölskyldan hefði farið upp á þilfar eftir að skipið rakst á ísjakann:

„Ég gat séð ísjakana allt í kring... Það var kalt og litlu krílin stóðu þétt saman til að verða ekki troðin undir... Litla stúlkan mín, Lillie, fylgdi mér og maðurinn minn sagði: Farið þið, við komumst í annan bát. Hann brosti þegar hann sagði þetta."

Lillian Asplund giftist aldrei og hætti snemma að vinna til að sjá um móður sína, sem náði sér aldrei eftir slysið. Selma Asplund lést árið 1964, 91 árs að aldri. Felix sonur hennar lést 1983, 73 ára.

Lillian Gertrud Asplund.
Lillian Gertrud Asplund. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert