Dorrit Moussaieff kyrrsett á ísraelskum flugvelli

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.

Dorrit Moussaieff, forsetafrú, var stöðvuð af ísraelskri lögreglu á Ben-Gurion flugvelli í Ísrael á mánudag, þegar hún hugðist halda þaðan að lokinni þriggja daga dvöl í landinu. Var Dorrit kyrrsett á vellinum í tæpar tvær klukkustundir áður en hún fékk að fara úr landi.

Dorrit sagði í samtali við Morgunblaðið, að hún hefði orðið fyrir ótrúlegum dónaskap ísraelsku landamæralögreglunnar. Lögreglan sagðist ekki vilja hleypa henni úr landi þar eð hún væri ekki með ísraelskt vegabréf og var því meðal annars haldið fram við Dorrit að hún væri að villa á sér heimildir.

Dorrit er ekki íslenskur ríkisborgari og hafði engin diplómataskilríki á sér. Hún segir að lögreglukonan í landamæraeftirlitinu hafi verið óskaplega dónaleg og m.a. spurt hvers vegna breska vegabréfið mitt væri gefið út í Reykjavík. Þegar Dorrit sagðist búa þar og vera gift forseta Íslands var svar konunnar: Það er enginn forseti á Íslandi. Hún hafi svo spurt fólk byggi virkilega á Íslandi og hvers konar fólk það væri. „Ég sagði að hér byggi ósköp venjulegt fólk en þá spurði hún mig hvort það hefðist við í snjóhúsum," segir Dorrit.

Fjallað var um þetta í fjölmiðlum í Ísrael í dag. Fram kemur, að myndband var tekið af samskiptum Dorrit og landamæravarðarins og var það sýnt í ísraelskum sjónvarpsstöðvum í dag.

Nánar er rætt við Dorrit í Morgunblaðinu á morgun.

Umfjöllun TV10 í Ísrael

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert